Spurt&svarað

Finndu svör, upplýsingar og önnur praktísk atriði um Startup SuperNova.

Fyrir hverja?

Við óskum eftir öflugum teymum með snjallar og skapandi viðskiptalausnir sem hafa burði til að keppa á alþjóðamarkaði. Hraðallinn er stökkpallur fyrir sprotafyrirtæki og einstakur vettvangur til að þróa áfram nýsköpunarverkefni innan rótgrónari fyrirtækja.

Við yfirferð umsókna er horft til sérstöðu og nýnæmi hugmyndar, markaðar sem ætlunin er að höfða til, samsetningu teymisins og áhuga og vilja þeirra til að fara út fyrir þægindarammann og vinna ötullega að markmiðum sínum


Viðvera

Þau teymi sem valin eru til þátttöku fá aðgang að fullbúinni vinnuaðstöðu meðan á verkefninu stendur. Við hvetjum ykkur til að nýta þau tækifæri sem felast í samveru við aðra frumkvöðla. Skipulögð dagskrá fer fram í hverri viku og boðið upp á fjarfundi. Þátttakendur þurfa að taka þátt í undirbúningi fyrir fjárfestadag verkefnisins og lokadeginum sjálfum sem fram fer í Reykjavík í lok ágúst ár hvert.


Er hraðallinn einnig fyrir fyrirtæki sem eru nú þegar í rekstri?

Það er ekki skilyrði að fyrirtækin séu nýstofnuð, enda er algengt að nýjar hugmyndir verði til hjá starfsfólki rótgrónari fyrirtækja. Slík fyrirtæki geta sent teymi í Startup SuperNova til að þróa áfram nýja hugmynd eða tækni. Við hvetjum stjórnendur fyrirtækja, sem þurft hafa að draga úr starfsemi sinni vegna COVID-19 faraldursins, sérstaklega til að sækja um. Þátttaka gæti þróað fyrirtækið í nýjar áttir og gert það reiðubúið til að takast á við breyttar aðstæður og nýjar neyslu- og ferðavenjur almennings.


Við erum búsett utan höfuðborgarsvæðisins / erlendis, getum við tekið þátt?

Já, auðvitað! Við leggjum okkur fram við að nýta fjarfundatækni og skipuleggja hraðalinn með þeim hætti að hægt sé að takmarka ferðir á staðinn fyrir þá sem búsettir eru annars staðar.


Hvað kostar að taka þátt?

Þátttaka í hraðlinum kostar ekkert. Þátttakendur þurfa þó sjálfir að standa straum af ferðakostnaði í þeim tilvikum sem það á við.


Þarf ég að láta hlut í fyrirtækinu mínu fyrir að þiggja 1 m. kr. styrk?

Fyrirtækjum sem valin eru til þátttöku gefst kostur á að þiggja 1 m.kr. fjárstyrk gegn valfrjálsum kauprétti bakhjarla verkefnisins á 5% eignarhlut gegn 5.000,000 kr hlutafé. Styrkinn má afþakka og fellur þá kaupréttur niður. Fjárstyrknum er ætlað að skapa þátttakendum svigrúm til að einblína á þróun viðskiptahugmynda sinna meðan á hraðlinum stendur. Bakhjarlar verkefnisins eru Nova, Gróska og Icelandic Startups.


Er viðskiptahugmyndin mín örugg í ykkar höndum?

Já. Farið er með allar umsóknir sem trúnaðarupplýsingar.


Hvar er aðsetur Startup SuperNova?

Startup SuperNova er starfrækt í hjarta Vísindagarða í Grósku, þar sem finna má suðupott nýsköpunar og frumkvöðlastarfs á Íslandi í nálægð við háskóla, Landspítalann og mörg helstu nýsköpunarfyrirtæki landsins. Sú staðsetning veitir einstakt tækifæri til tilrauna, þekkingarflæðis og verðmætasköpunar.


Innifalið

Auk þess sem þátttakendum stendur til boða að þiggja 1.000.000 kr. fjárstyrk fá teymin aðgang að vinnuaðstöðu og háhraða nettengingu. Þátttakendur fá aðgang að stórum hópi leiðandi sérfræðinga og fjölda tækifæra til að efla tengslanetið og koma hugmyndinni á framfæri. Við bjóðum upp á stútfulla dagskrá yfir sumartímann sem miðar að því þróa áfram viðskiptahugmyndir og koma vöru á markað.


Umsóknarfrestur

Opið er fyrir umsóknir í hraðalinn til 9. maí.


Umsóknarferlið

Þegar umsóknarfresti lýkur mun hópur sérfræðinga fara yfir þær og gefa þeim einkunn. Gert er ráð fyrir því að á bilinu 20 - 30 stigahæstu teymin verði boðuð í viðtal. Valin verða að lokum tíu teymi til þátttöku og niðurstaða kynnt með góðum fyrirvara áður en hraðallinn hefst í júní.


Fleiri spurningar?

Hafðu endilega samband í síma 552 5151 eða sendu okkur tölvupóst á netfangið hello@icelandicstartups.is.