Dansgólfið

24. maí 2022

Ársupp­gjör 2021

Gott rekstrarár hjá Nova

Ársreikningur Nova samstæðunnar 2021 hefur verið birtur. Stærsti skemmtistaður í heimi hélt áfram að stækka og hafa viðskiptavinir félagsins aldrei verið fleiri og voru þeir ánægðustu í Ánægjuvoginni 13. árið í röð. Nova var auk þess valið sem eitt af fyrirtækjum ársins hjá VR í stærstu starfsánægjukönnun á Íslandi. Tryggir viðskiptavinir og ánægt starfsfólk er sem fyrr grunnurinn að góðum rekstrarárangri Nova.

Tekjuvöxtur á árinu 2021 fyrir einskiptisliði var 7% miðað við árið á undan. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam 3,2 mö.kr. fyrir einskiptisliði samanborið við 2,8 ma.kr árið 2020. Hagnaður ársins 2021 eftir skatta nam tæpum 1,5 mö.kr. Nova hefur fjárfest umtalsvert í innviðum sínum á síðustu árum eða fyrir um 12,0%-13,5% af tekjum sem meðal annars hefur leitt til þess að félagið er komið lengst í innleiðingu 5G á Íslandi.

Nýleg hlutafjáraukning

Hlutafé Nova var aukið um 3,5 ma.kr. í apríl 2022 til að styðja enn frekar við fjárfestingar á 5G fjarskiptakerfi félagsins og styrkja efnahagsreikning. Þetta þýðir að efnahagsreikningur eins og hann birtist í ársreikningi 2021 hefur styrkst um 3,5 ma.kr., bæði í formi niðurgreiðslu á vaxtaberandi skuldum og aukningu á handbæru fé. Eiginfjárhlutfall Nova verður tæp 34% eftir hlutafjáraukninguna og skuldsetningarhlutföll lækka. Áhrifin af þessari hlutafjáraukningu sjást nánar í töflunni að neðan.

Margrét Tryggvadóttir, forstjóri Nova:Nova hefur verið í forystu í innleiðingu á nýjustu tækni í fjarskiptum. Einstakur hópur starfsfólks sem leggur sig fram við að veita góða þjónustu, ánægja viðskiptavina og forysta í tæknibreytingum hefur skilað Nova þessum rekstrarárangri. Góð afkoma ásamt hlutafjáraukningu mun gera okkur kleift að leggja áfram áherslu á fjárfestingar í virkum innviðum, meðal annars uppbyggingu 5G fyrir viðskiptavini okkar“.

Um Nova

Nova var stofnað árið 2006 og er nú orðið eitt af stærstu og öflugustu fjarskiptafyrirtækjum landsins. Nova hefur frá upphafi lagt áherslu á framsækna fyrirtækjamenningu með framúrskarandi starfsfólki og að vera ávallt leiðandi við innleiðingu nýrrar tækni.

Nova hefur verið í farabroddi í innleiðingu nýjustu tækni og er komið lengst í uppbyggingu 5G á Íslandi. Fyrirtækið á og rekur sína eigin virku innviði vítt og breitt um landið. Hjá Nova starfa um 150 starfsmenn á höfuðborgarsvæðinu, Akureyri og Selfossi. Í janúar var tilkynnt um að Nova hafi fengið hæstu einkunn í Íslensku ánægjuvoginni þrettánda árið í röð.

Nova hefur ákveðið að hefja undirbúning á skráningu hlutabréfa félagsins á Aðalmarkað Nasdaq Iceland. Stefnt að skráningu á fyrri helmingi þessa árs. Ítarlegri fjárhagsupplýsingar verða birtar í aðdraganda útboðsins.

Stjórn Nova skipa: Hugh Short, stjórnarformaður, Hrund Rudolfsdóttir, Jón Óttar Birgisson, Tina Pidgeon og Kevin Payne.

Skoðaðu Ársuppgjörið hér.

Mynd af Margrét Tryggvadóttir
Margrét Tryggvadóttir
Skemmtanastjóri / CEO