Dansgólfið

1. júní 2022

Nova gefur starfs­fólki hluta­bréf í félaginu og skrán­ing­ar­lýs­ing birt

Stærsti hluthafi Nova, bandaríska fjárfestingarfélagið Pt Capital, hefur ákveðið að gefa starfsmönnum Nova hlutabréf í félaginu sem „TAKKlæti“ fyrir vel unnin störf. TAKKlætisgjöfin er veitt til 111 starfsmanna í fullu starfi og í hlutfalli við starfsaldur. Markaðsverðmæti gjafarinnar er frá 100-500 þús kr. út frá starfsaldri. Nova mun að auki greiða launabónus til að mæta staðgreiðsluskatti starfsmanna vegna gjafarinnar. Gjöfin verður afhent starfsfólki félagsins við skráningu Nova á Aðalmarkað Nasdaq Iceland.

Almennur fjárfestafundur haldinn 3. júní

Hlutafjárútboð Nova hefst föstudaginn 3. júní kl. 10:00 og lýkur viku síðar, 10. júní kl. 16:00. Lýsing vegna útboðsins hefur nú verið birt og má nálgast hana hér. Áætlað er að niðurstöður útboðs verði tilkynntar 13. júní og að gjalddagi vegna greiðslu á bréfum í Nova verði 16. júní. Fyrstu viðskipti með bréf Nova á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland eru áætluð 21. júní.

Ítarlegar upplýsingar um fyrirkomulag útboðsins má finna í lýsingu og fjárfestakynningu.

Starfsfólk Nova mun líkt og aðrir fjárfestar geta skráð sig fyrir hlutum í útboðinu, en leitast verður við að skerða ekki áskriftir starfsmanna undir 5.000.000 kr., áskriftir viðskiptavina Nova undir 1.000.000 kr. og aðrar áskriftir undir 500.000 kr.

Útboðið fer fram í tveimur áskriftarbókum, Áskriftarbók A og Áskriftarbók B. Í Áskriftarbók A verður tekið við áskriftum frá 100.000 kr. til 20.000.000 kr. á föstu gengi, 5,11 kr. áhlut. Í Áskriftarbók B verður tekið við áskriftum yfir 20.000.000 kr. á lágmarksgengi 5,11 kr. á hlut og mun endanlegt gengi ákvarðast af áskriftum. Seldir verða 1.416.773.033 hlutir, eða sem samsvarar um 37,1% af útgefnu hlutafé félagsins. Heimilt er að stækka útboðið um allt að 20%, í allt að 1.700.127.639 hluti eða sem samsvarar um 44,5% af útgefnu hlutafé félagsins.

Almennur fjárfestafundur vegna útboðs Nova verður haldinn föstudaginn 3. júní kl, 10:00 í Arion banka Borgartúni og verður honum streymt í beinni útsendingu.

Margrét Tryggvadóttir, forstjóri Nova:

Við erum spennt fyrir skráningu félagsins á markað og með því að gefa starfsfólki hlutabréf í félaginu viljum við einfaldlega segja TAKK. Hjá Nova er einstakur hópur starfsfólks sem á stóran þátt í velgengni Nova, sem meðal annars sést á því að við höfum verið efst fjarskiptafyrirtækja í Ánægjuvoginni 13 ár í röð, nokkuð sem við í Nova liðinu erum öll stolt af. Núna eru tímamót og nýr kafli í sögu Nova og ánægjulegt að starfsfólk verði jafnframt hluthafar í félaginu sem og viðskiptavinir“.

Hugh Short, stjórnarformaður Nova og forstjóri Pt Capital LLC:

Við erum mjög ánægð með starfsfólk Nova og vitum að það á stóran þátt í góðum árangri félagsins á síðustu árum. Nova hefur sýnt stöðugan vöxt á fjarskiptamarkaði og hefur náð sterkri markaðshlutdeild þar. Með því að starfsfólk verði hluthafar í félaginu verða það sameiginlegir hagsmunir fólks og fyrirtækis að vel gangi áfram. Fyrirtækið stefnir á áframhaldandi vöxt og frekari stuðning við 5G uppbyggingu, þar sem það er stefna félagsins að eiga og byggja upp virka fjarskiptainnviði.

Um Nova

Nova hefur frá stofnun félagsins árið 2006 lagt áherslu á framsækna fyrirtækjamenningu með framúrskarandi starfsfólki. Nova hefur verið í farabroddi í innleiðingu nýjustu tækni og er komið lengst í uppbyggingu 5G á Íslandi. Fyrirtækið á og rekur sína eigin virku innviði vítt og breitt um landið. Hjá Nova starfa um 150 starfsmenn á höfuðborgarsvæðinu, Akureyri og Selfossi. Í janúar var tilkynnt um að Nova hafi fengið hæstu einkunn í Íslensku ánægjuvoginni þrettánda árið í röð og í maí hlaut Nova viðurkenninguna fyrirtæki ársins í stærstu vinnustaðarannsókn á Íslandi sem framkvæmd er af VR.

Fyrirtækjaráðgjöf Arion banka hefur umsjón með skráningu félagsins á markað.

Mynd af Margrét Tryggvadóttir
Margrét Tryggvadóttir
Skemmtana- og forstjóri