Baksviðs

1. mars 2022

Nova undirbýr skrán­ingu og í hlut­hafa­hóp­inn bætast öflugir íslensk­ir fjár­fest­ar

Nova undirbýr skráningu og í hluthafahópinn bætast öflugir íslenskir fjárfestar  

Nova hefur ákveðið að hefja undirbúning á skráningu hlutabréfa félagsins á Aðalmarkað Nasdaq Iceland. Stefnt að skráningu á fyrri helmingi þessa árs.

Í aðdraganda fyrirhugaðrar skráningar hefur Nova gengið frá 3,5 milljarða króna hlutafjáraukningu. Tilgangur hlutafjáraukningarinnar er að styðja enn frekar við framtíðarvöxt félagsins og áframhaldandi fjárfestingar svo félagið viðhaldi forskoti sínu í framúrskarandi þjónustu til viðskiptavina sinna.

Samhliða hlutafjáraukningunni hafa núverandi hluthafar selt hluta af eign sinni. Nýir hluthafar eignast um 36% hlut í félaginu. Meðal nýrra hluthafa eru sjóðir í rekstri Stefnis, Íslandssjóða og Landsbréfa. Hluthafalisti ásamt ársreikningi og ítarlegri fjárhagsupplýsingum verður birtur í aðdraganda útboðsins.

Margrét Tryggvadóttir, forstjóri Nova: „Fjarskiptafyrirtæki eru í eðli sínu mikilvæg innviðafyrirtæki og er Nova á meðal stærstu og öflugustu fjarskiptafyrirtækja landsins. Við fögnum aðkomu nýrra hluthafa og erum spennt fyrir því að stíga það skref að skrá félagið á markað. Með skráningu félagsins fjölgar tækifærum fjárfesta til að koma að uppbyggingu fjarskiptainnviða á Íslandi. Nova hefur frá upphafi lagt áherslu á framsækna fyrirtækjamenningu með framúrskarandi starfsfólki og að vera ávallt leiðandi við innleiðingu nýrrar tækni. Ég hef starfað í ýmsum hlutverkum hjá Nova allt frá stofnun félagsins og hlakka til þessa nýja kafla í sögu Nova.

Hugh Short, stjórnarformaður Nova og forstjóri Pt Capital LLC:
Við hjá Pt Capital og Nova erum ánægð með viðskiptin og hlökkum til að vinna náið með nýjum hluthöfum í átt að frekari vaxtartækifærum og til að styðja við vegferð okkar með skráningu á Aðalmarkað Nasdaq Iceland. Nova hefur sýnt stöðugan vöxt á fjarskiptamarkaði og hefur náð sterkri markaðshlutdeild þar.  Fyrirtækið stefnir á áframhaldandi vöxt og frekari stuðning við 5G uppbyggingu, þar sem það er stefna félagsins að eiga virka hluta fjarskiptainnviða þess.

Um Nova Nova var stofnað árið 2006 og er nú orðið eitt af stærstu og öflugustu fjarskiptafyrirtækjum landsins. Fyrirtækið á og rekur sína eigin virku innviði vítt og breitt um landið. Hjá Nova starfa um 150 starfsmenn á höfuðborgarsvæðinu, Akureyri og Selfossi. Í janúar var tilkynnt um að Nova hafi fengið hæstu einkunn í Íslensku ánægjuvoginni þrettánda árið í röð.

Nova hefur frá upphafi verið í farabroddi í innleiðingu nýjustu tækni og er komið lengst í uppbyggingu 5G á Íslandi. Félagið hefur fjárfest markvisst í uppbyggingu virkra innviða í sinni eigu sem mun tryggja Nova áframhaldandi forystu á fjarskiptamarkaði. Vel heppnuð markaðssetning, góð þjónusta og forysta í innleiðingu nýjustu tækni hefur skilað Nova sterkri markaðshlutdeild og ánægðum og tryggum viðskiptavinum. Allir þessir þættir ásamt einstökum hópi starfsfólks hefur skilað félaginu miklum ávinningi og tekjuvexti undanfarin ár.

*Fyrirtækjaráðgjöf Arion banka var ráðgjafi við framangreinda sölu og mun hafa umsjón með skráningu félagsins á markað. *