Baksviðs

24. maí 2022

Nova tekur þátt í samstarfi sem bjargar lífum!

Samstarf Neyðarlínunnar og farsímafyrirtækjanna Nova, Vodafone og Símans hefur verið kynnt.

Um er að ræða mikilvægt og tímabært verkefni þar sem viðeigandi aðilar hafa tekið höndum saman um tryggja gott farsímasamband á fáförnum og afskekktum stöðum á Íslands. Þetta skapar aukið öryggi þar sem víðar verður hægt að ná sambandi við neyðarnúmerið 112 sem og önnur símanúmer.

Þetta er mögulegt með samstarfi framangreindra aðila sem nýta sér svokallaða MOCN tækni, (e. Multi-Operator Core Networks) þar sem sami sendir getur tengst kjarnakerfum allra farsímafélaganna og fjarskiptasendar og tíðni á afskekktum stöðum þannig samnýtt. Þetta virkar þannig að Neyðarlínan setur upp fjarskiptaaðstöðu og nauðsynlegan búnað eins og mastur og rafmagn á stöðum þar sem markaðslegar forsendur eru ekki fyrir hendi vegna lítillar farsímanotkunar. Neyðarlínan er í samstarfi við eitt þriggja farsímafélaganna sem setur upp sendibúnað á staðnum með opinberum fjárstyrk, en farsímar viðskiptavina farsímafélaganna hafa jafnan aðgang að sendinum. Þetta fyrirkomulag tryggir að símasamband næst jafn greiðlega hjá viðskiptavinum allra farsímafélaganna.

,,Hér er að ferðinni afar áhugavert og tímabært samstarfsverkefni Neyðarlínunnar og farsímafyrirtækja sem í grundvallar atriðum gengur út á að Neyðarlínan tryggir innviði utan markaðssvæða og fjarskiptafyrirtækin veita þar farsímaþjónustu um einn sendi sem allir farsímanotendur geta notfært sér á jafnræðisgrunni óháð því hjá hvaða fjarskiptafyrirtæki áskriftin er“ sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra í ræðu sinni við kynninguna í dag.

Árið 2020 lagði Fjarskiptastofa þá kvöð á Neyðarlínuna að hún yrði alþjónustuveitandi. Það felur í sér að veita skuli viðunandi síma- og netþjónustu á lögheimilum og hjá fyrirtækjum í reglulegri starfsemi þar sem fjarskiptafélögin sjá ekki hag sinn í að sinna slíkri þjónustu vegna markaðsbrests. Markaðsbrestur getur t.d. verið vegna lítillar farsímanotkunar vegna strjálbýlis eða þess hve afskekkt svæðið er.

Þetta leiddi til þess að Neyðarlínan samdi við farsímafélögin um að standa að uppbyggingu á slíkum stöðum sem nú eru 12 talsins og er sífellt að fjölga. Nú er horft til um 30 staða til viðbótar við þá sem fyrir eru. Fyrirkomulagið er þannig að Neyðarlínan styrkir fjárhagslega eitt félaganna til að koma upp sendabúnaði, en fjárstyrkurinn er bundinn því skilyrði að hin símafélögin hefðu einnig afnot af þeim sendi og eru farsímanotendur þannig jafnsettir óháð því hvaða farsímafélag viðkomandi er í viðskiptum við. Þannig er tryggður aðgangur og þjónusta farsímafélaganna á þeim sendastöðum sem byggðir eru upp með ríkisstuðningi að tilhlutan Neyðarlínunnar. Kosturinn við þetta fyrirkomulag er sá að einungis þarf að styrkja uppsetningu eins sendis á hverjum stað.

Tæknilega er grunnurinn að þessu samstarfi svokölluð MOCN tækni þar sem farsímakerfi Nova, Símans og Vodafone veita þjónustu, þótt aðeins eitt félaganna reki viðkomandi sendi. Gert er ráð fyrir að farsímafélögin hafi jafn marga sendastaði í sinni umsjá, hvert um sig og að jafnræði sé tryggt.

Í samningi á milli aðila kemur m.a. fram að Neyðarlínan ákveður hvar þörf er á uppsetningu sendis og í framhaldi af því er farsímafélag valið til að annast verkefnið. Í samningnum er ekki kveðið á um hámarksfjölda sendastaða en Neyðarlínan velur sendistaði meðal annars m.t.t. alþjónustukvaðar félagsins á hverjum tíma og er ekkert því til fyrirstöðu að þétta netið á næstu misserum, enda tilgangurinn með verkefninu að stuðla að því að koma á farsímaþjónustu þannig að sem víðast sé hægt að hringja í 112 til þess að kalla eftir hjálp.

Mynd af Margrét Tryggvadóttir
Margrét Tryggvadóttir
Skemmtanastjóri / CEO