Dansgólfið

13. okt 2020

Einn, tveir og iPhone 12, Mini, Pro og Pro Max!

Einn, tveir og iPhone 12, Mini, Pro og Pro Max!

Apple hélt loksins kynningu á nýjasta iPhone snjallsímanum og það var vægast sagt ótrúleg kynning!

Tim Cook og félagar hans hjá Apple voru í gífurlegu stuði og kynntu til leiks fjóra nýja iPhone 12 síma. iPhone 12, iPhone 12 Mini, iPhone 12 Pro og iPhone 12 Pro Max. Það er því ljóst að allir ættu að geta fundið sinn eina rétta.

Hvað eiga símarnir sameiginlegt?

 • Allir símarnir eiga það sameiginlegt að vera með 5G stuðning, en það eru risastórar fréttir, eins og Tim Cook orðaði það ‘5G just got real’. Við erum sammála Tim að 5G sé framtíðin og við elskum blússandi háhraðatengingar sem gefa okkur fáránlega hratt streymi, háskerpugæði og niðurhal á ofurhraða. Síminn skynjar svo hvort þú þurfir 5G eða ekki og flakkar á milli kerfa til þess að spara rafhlöðuna.
 • Nú getur þú misst símann þinn og það eru fjórum sinnum minni líkur á að skjárinn brotni, þökk sé Ceramic Shield tækninni. En þessi tækni gerir það að verkum að iPhone 12 er sterkbyggðasti iPhone síminn frá upphafi.
 • Apple kynntu til leiks glæsilegan A14 örgjörva sem skilar ótrúlegum hraða og vinnslu. Vinir okkar hjá Apple segja þetta vera hraðasta örgjörva í farsíma hingað til. Það er 40% bæting milli A13 og A14 örgjörvans og hann slær hreinlega öll met. Nú getur síminn þinn framkvæmt 11 trilljón aðgerðir á sekúndu. Geri aðrir betur.
 • MagSafe er mætt á svæðið en það er segull inní símanum fyrir þráðlaus hleðslutæki og aðra aukahluti.
 • Apple tók stórt skref og lofaði okkur því að árið 2030 ætla þau að kolefnisjafna allan framleiðsluferil sinn. Hluti af þeirri vegferð er að með iPhone símum fylgir enginn hleðslukubbur eða heyrnartól, einungis USB-C í lightning kapall. Það kannast eflaust margir iPhone eigendur við að eiga gífurlegt magn af hleðslutækjum og heyrnartólum í öllum skápum og skúffum. Við fögnum svo sannarlega þessari vegferð hjá Apple.

iPhone 12 Pro og Pro Max

 • Þú getur valið á milli fjögurra lita, blár, gylltur, silfur og dökkgrár. Allir litirnir eru glæsilegir svo það verður vandi að velja á milli.
 • Símarnir hafa verið algjörlega endurhannaðir og eru minni um sig en eru með stærri skjá. iPhone 12 Pro er með 6.1” skjá og iPhone Pro Max skartar 6.7” skjá. Við erum að tala um Super Retina XDR skjá sem skilar töluvert hærri upplausn en forveri sinn. Gargandi snilld fyrir allt hámhorf.
 • Myndavélarnar eru eins og áður fjórar talsins, þrjár á bakhliðinni og ein að framan. Þær hafa þó aldeilis fengið yfirhalningu! Nú er betra Night Mode, meiri birta, meiri skerpa, stærri sensor, betri stabilizer, meiri aðdráttur í linsunni, þú getur tekið myndir í Portrait Mode í Night Mode, rosalegt Deep Fusion og þessi listi er hreinlega endalaus. Það er einfaldlega bara allt betra.
 • Þú getur tekið myndir í RAW, eins og þeir allra hörðustu. RAW bíður upp á ótrúlega möguleika í myndvinnslu og þú getur unnið myndir beint í símanum eða öðrum tækjum.
 • Dolby Vision HDR video upptaka er mætt á svæðið, nú þurfa þeir sem vinna við efnissköpun að sperra eyrun. Þú getur tekið upp í 4K og 60fps eins og enginn sé morgundagurinn. Þú getur tekið upp, unnið efnið, horft og deilt, allt á ferðinni!
 • LiDAR skanninn gerir svo myndavélinni kleift að ná betri fókus á myndum, nákvæmari dýpt og býr til fullt af nýjum möguleikum fyrir viðbættan veruleika (e. augmented reality).

iPhone 12 Pro camera

iPhone 12 og 12 Mini

 • Hér erum við að tala um sama símann en í tveimur mismunandi stærðum. iPhone síminn hefur verið endurhannaður á mjög fallegan máta. Það er hægt að velja á milli 5 lita: svartur, hvítur, rauður, grænn og blár. Þetta er liggur við allt lagið um litina.
 • Þessir símar eru með sömu stærð á skjá og iPhone 11 en síminn er mun minni um sig svo hann passar betur í höndina og vasa. Fullkominn fyrir fólk með smáar hendur.
 • Símarnir skarta nýjum OLED skjá með frábærri upplausn, góðri birtu, fallegum litum og djúpum svörtum. Maður ætti að sjá allt sem fer fram á skjánum og meira til.
 • Myndavélin er að sjálfsögðu uppfærð og er enn með tvær linsur á bakhliðinni, 12mp ofurvíðlinsu og 12mp víðlinsu. Þessar linsur spila mjög vel saman þökk sé A14 örgjörvanum og skila ótrúlegum myndum. Night Mode hefur verið endurbætt og svo bætist við Night Mode timelapse sem er fullkomið fyrir heiðskýrar nætur og norðurljós.
 • iPhone 12 Mini er svo bara minni týpa af þessum síma þar sem allri þessari ótrúlegu tækni er þjappað á bak við 5.4” skjá. Þeir hljóta að vera góðir í tetris þarna hjá Apple.

iPhone 12 Lineup

HomePod mini

Okkar menn hjá Apple kynntu til leiks HomePod mini, en sú græja á að einfalda Snjallheimilið svo um munar! Þarna er á ferðinni glæsileg hönnun sem allir inná Skreytum Hús ættu að heillast af og auðvitað er hægt að stjórna öllum mögulegum snjalltækjum í gegnum hann. Þessi snjallhátalari er með 360° hljóði og kemur í tveimur litum - hvítum og geimgráum (e. Space Gray).

Margir betri en einn

Ef þú ert með fleiri en einn HomePod mini inná heimilinu þá tengjast þeir og spila samtímis. Svo ef þú ert á hlaupum um allt hús að endurraða eða þurrka af þá ættir þú ekki að missa sekúndu úr laginu eða hlaðvarpinu. Þó að þú hlaupir svo útúr húsi þá heldur uppáhalds hlaðvarpið þitt áfram í iPhone símanum þínum.

HomePod

Vinkona okkar hún Siri

Það er auðvitað hún Siri sem gerir snjallhátalara svona snjalla. Siri hefur nóg að gera en nú er hún bæði orðin hraðari og veit meira. Siri er í snjallhátalaranum svo þú getur spjallað við hana þar. Hún segir þér frá veðrinu, dagskrá dagsins og hún sendir skilaboð fyrir þig. Ef þið eruð mörg á heimilinu þá þekkir hún muninn á röddum og getur aðstoðað hvern og einn á heimilinu eftir þörfum. Hún man uppáhalds lagalista hvers og eins og þekkir þig strax á röddinni. Þannig er hægt að komast hjá því að pabbi hlusti óvart á WAP og fái þá frekar uppáhalds lagalistann sinn.

Stjórnaðu heimilinu

HomePod mini tengist Home appinu og þá getur þú beðið Siri um að læsa hurðum, kveikja ljósin, draga frá gluggatjöldin og hvað eina. Siri getur svo líka verið einskonar spjallstöð (e. Intercom) og þá getur þú sent hljóðskilaboð í alla snjallhátalara sem þú ert með á heimilinu. Tilvalið ef allir eru að verða of seinir í skólann og þurfa smá hvatningar orð, sem hljóma þá um allt hús. Þú getur líka sent talskilaboð beint í önnur tæki og meira að segja beinustu leið í AirPods-in hjá krökkunum. Ef þú ert í bílnum þínum getur þú notað iPhone símann til að spyrja alla á heimilinu hvað þeim langi í matinn og þau geta svarað þér í gegnum spjallstöðina. Endalausir og ótrúlegir möguleikar.

Við bíðum spennt eftir að fá allar þessar græjur í hús!

Mynd af Sigurður Helgi Harðarson
Sigurður Helgi Harðarson
Innkaupastjóri Nova