Dansgólfið

8. mars 2023

Fjöl­breyti­leik­inn í fyrir­tækj­um!

Í dag er alþjóðlegi dagur kvenna og þá er upplagt að velta nokkrum hlutum fyrir sér.

Á árinu hlaut Nova Jafnvægisvogina, en FKA hefur staðið fyrir verkefninu þar sem tilgangurinn er að auka á jafnvægi kynja í efsta lagi stjórnunar fyrirtækja í íslensku viðskiptalífi. Markmið Jafnvægisvogarinnar er að árið 2027 verði hlutfallið á milli kynja að minnsta kosti 40/60 í framkvæmdastjórnum fyrirtækja á Íslandi, og að virkja íslenskt viðskiptalíf til að verða að fyrirmynd jafnréttis fyrir aðrar þjóðir.

Jafnvægisvogin mikilvægur þáttur í því að vekja fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög til umhugsunar um virði fjölbreytileika og jafnvægis með auknum jöfnuði kynja í stjórnunarstöðum. Konur eru til dæmis aðeins forstjórar í fjórum af þeim 27 fyrirtækjum sem skráð eru á Aðalmarkað og First North markað Kauphallar Íslands og af framkvæmdastjórum íslenskra fyrirtækja eru konur 24%.

Fjölbreytt lið skilar besta árangrinum!

Það er forvitnilegt að velta fyrir sér hvort afkoman sé betri hjá fyrirtækjum þar sem jafnrétti og fjölbreytni er til staðar? Er ánægja viðskiptavina og starfsfólks meiri?

Það er líka mikilvægt að hafa í huga að fjölbreytileiki nær utan um svo miklu meira en bara karla og konur. Við erum nefnilega allskonar, allt frá því að vera hinsegin, kynsegin, með einn fót eða tvo, höldum jól eða ramadan, fæðumst í Bolungarvík, í Guinea Bissu eða bara á Balí. Þá þarft að taka tillit og huga að fjölbreytileikanum í stærra mengi en bara karlar og konur.

Við hjá Nova höfum haft fjölbreytni liðsins okkar í fyrirrúmi enda erum við þeirrar skoðunar að það sé forsenda fyrir góðum árangri. Það er virkilega áhugavert að skoða niðurstöður Íslensku ánægjuvogarinnar og bera saman árangur fyrirtækja sem hafa hugað að jöfnuði kynja og þeirra sem hafa ekki lagt eins mikla áherslu á það.

Íslenska ánægjuvogin er mælikvarði á ánægju viðskiptavina sem er mæld reglulega yfir árið og gagnast fyrirtækjum sem mælikvarði á þeirra frammistöðu á milli ára og í samanburði við helstu samkeppnisaðila.

Það er svo virkilega áhugavert að þegar við skoðum þau fyrirtæki sem eru með ánægðustu viðskiptavinina í hverri atvinnugrein fyrir sig í ánægjuvoginni breytist myndin. Þar sem upplýsingar um kynjahlutföll stjórnenda eru aðgengilegar eru öll fyrirtæki sem hafa ánægðustu viðskiptavinina í hverri atvinnugrein fyrir sig, fyrir utan eitt, með nokkuð jöfn kynjahlutföll, eða 40% stjórnenda eða meira af öðru hvoru kyni.

Þar sem fjölbreytni er til staðar má því telja að það skili fyrirtækjum og starfsfólki betri árangri og uppskeri ánægðari viðskiptavini. Ísland hefur vakið athygli í gegnum tíðina fyrir góða þátttöku kvenna í stjórnmálum, hér eru konur bæði forsætisráðherra og biskup. Þrátt fyrir það má segja að fjölbreytileikinn í stjórnum fyrirtækja sé frekar lítill. Þar þurfum við að fá aukna fjölbreytni til dæmis út frá aldurssamsetningu, uppruna, trú, kynhneigð og kynvitund.

Elskum fjölbreytni!

Mynd af Margrét Tryggvadóttir
Margrét Tryggvadóttir
Skemmtanastjóri / CEO