Dansgólfið

16. sept 2020

Nýjasta nýtt frá Apple

Þann 15. september hélt Apple kynningu í Apple Park í Cupertino í Kaliforníu með yfirskriftinni Tíminn flýgur (Time Flies). Við biðum spennt eftir því að nýr iPhone yrði kynntur en það var því miður ekki í þetta skiptið, svo við bíðum áfram á sætisbrúninni. En það voru samt sem áður kynntar til leiks spennandi nýjungar. Það kemur nýtt Apple Watch Series 6, Apple Watch SE, 8. kynslóð af iPad og 4. kynslóð af iPad Air ásamt fullt af nýjum og spennandi þjónustum.

Hér munum við fara yfir það nýjasta sem Apple býður okkur uppá.

Apple Watch Series 6

 • Nýtt og endurbætt Apple Watch er mætt á svæðið í allskonar litum en litirnir sem eru í boði eru blár, nýr gulllitaður, nýr dökkgrár og rauður! Úrið kemur í stærðunum 40mm og 44mm.
 • Það eru flottir bakgrunnar (watch faces) sem eru sérhannaðir fyrir allskonar týpur, hvort sem þú ert á brimbretti í Þorlákshöfn, skrifstofudýr í Borgartúninu eða hlaupandi upp fjöll hér og þar, þá ætti að vera til bakgrunnur fyrir þig.
 • Í úrinu er nýr skynjari sem mælir súrefni í blóði á 15 sekúndum, svo þú ert hreinlega með lækninn á hendinni.
 • Í úrinu er nýr Silicone 6S Chip sem skilar ótrúlegum hraða og nú er skjárinn ennþá bjartari þegar þú ert úti að leika með úrið.
 • Maður getur alltaf glimmeri á sig bætt og nú eru komnar nýjar ólar á úrið, þar var Solo Loop mest áberandi en það er sílíkon ól með engum festingum sem passa fullkomlega á úlnliðinn og kemur í 7 litum og ýmisskonar stærðum. Svo er ól úr 100% endurunnu garni sem kemur í 5 litum og Leather Link ól úr leðri. Það er nóg til hjá Apple.

Apple Watch SE

 • Hér er mætt nýtt og ódýrara úr, en úrið er með Apple Watch series 6 hönnun með öllu því mikilvægasta sem Apple Watch hefur uppá að bjóða á betra verði. Úrið kemur í stærðunum 40mm og 44mm.
 • Í úrinu er S5 Chip sem má finna í Apple Watch Series 5 og úrið kemur í LTE útgáfu líka.
 • Glæsilegt úr með öllu því helsta sem þarf, fyrir þá sem vilja vera memm en elska líka að spara.

WatchSE

Family Setup

Hér er ný þjónusta fyrir Apple Watch sem er hugsuð fyrir krakka og eldri kynslóðina sem virkar svona:

 • Áður hefur þú þurft að para Apple Watch við iPhone síma, en núna verður það er óþarfi útaf Family Setup, þú einfaldlega tengir úrið við iPhone símann þinn og lætur krakkann eða eldriborgarann fá úrið og það er komið með snjallúr sem það getur notað og hringt úr.
 • Þú getur valið við hvern er hægt að spjalla við hvort sem verið er að hringja eða senda skilaboð
 • Þú getur fylgst með hvar það er staðsett og fengið tilkynningar um það, til dæmis ef dóttir þín er að mæta á fótboltaæfingu eða ef að afi er að rölta í Melabúðina að kaupa rúgbrauð.
 • Það er hægt að setja Skjólabjölluna á (school time mode) svo úrið virkar ekki þegar það á að vera að læra í skólanum eða heima
 • Þú þarft að vera með eSIM úr til að það sé hægt að nota Family Setup og er þjónustan væntanlegt á Íslandi í framtíðinni fyrir iPhone Series 4 og uppúr.

Apple Fitness+

 • Við bjóðum velkomna nýja þjónustu fyrir Apple Watch sem aðstoðar þig við að hreyfa þig heima hjá þér. Þessi þjónusta kemur ekki strax til Íslands en við getum látið okkur hlakka til!
 • Þú velur þér allskonar mismunandi æfingar sem hafa verið gerðar af heimsklassa þjálfurum og fylgist með þeim á skjánum í símanum þínum, iPadinum eða í gegnum AppleTV. Þar sérðu allar upplýsingar úr úrinu beint á skjánum. Hreyfing fyrir alla, allt frá Jóga og dansi til styrktaræfingar með lóðum eða á hlaup á hlaupabretti.

iPad 8th GEN

Húrra! Nýr og endurbættur iPad með A12 Chip sem skilar 40% meiri hraða og tvöfalt betri grafík. Þessi iPad mætir á svæðið í Bandaríkjunum á föstudaginn næsta og fljótlega eftir það kemur hann til Íslands. Hann er með 10,2“ Retina skjá og styður við Apple Pencil og lyklaborðið. Glimrandi góð græja fyrir alla þá sem eru á ferðinni og eða vilja gefa listagyðjunni lausan tauminn og teikna yfir sig.

iPad8thGEN

iPad Air 4th GEN

Fisléttur iPad Air hefur fengið algjöra yfirhalningu og nýja hönnun. Það eru nýir og spennandi litir í boði en það er hægt að velja á milli silfur, space gray, rose gold, green og sky blue. Eða bara fá sér einn í hverjum lit.

Hann er með 10,9“ Liquid Retina skjá og Touch ID í power takkanum sem er nýjung hjá Apple. Svo var splæst í nýjan A14 chip sem er það besta sem er á markaðnum í dag, USB-C tengi svo þú getur t.d. tengt hann við myndavél, skjá eða harðan disk. Það er stuðningur við Apple pencil og lyklaborðið og ekki nóg með það þá festist Apple pencil við hann með segli og hleður hann í leiðinni eins og á iPad Pro. Þessi iPad er svo væntanlegur í október, húrra fyrir því!

iPadAir

Við bíðum spennt eftir að fá allar þessar græjur í hús!

Mynd af Sigurður Helgi Harðarson
Sigurður Helgi Harðarson
Innkaupastjóri Nova