Dansgólfið

11. sept 2019

Apple Keynote og allt sem því fylgdi!

Nýjasta stöffið sem var kynnt á Apple Keynote!

Apple Keynote og allt sem því fylgdi!

Við sátum æsispennt yfir Apple TV í gær þegar Apple hélt sína árlegu september kynningu í Steve Jobs Theater í Kaliforníu. Kynningin var smekkfull af nýjungum frá Apple, tilfinningaríkum myndböndum og peppuðum áhorfendum.

Nýja stöffið!

Apple byrjaði á góðum fréttum fyrir leikjaglaða einstaklinga, en það er leikjaveitan Apple Arcade sem býður upp á fjöldan allan af leikjum sem þú getur spilað í iPhone, iPad, Apple TV og Apple tölvunni þinni. Áskrift að þessari þjónustu kostar 4.99$ á mánuði svo ef allt verður ófært í vetur þá á engum eftir að leiðast.

Önnur nýjung frá Apple er streymisveitan Apple TV+. Þar ætlar Apple að keppa við stærstu nöfnin í bransanum. Verðinu er stillt í hóf en viðskiptavinir borga 4.99$ á mánuði og geta þá fengið stjörnur á borð við Reese Witherspoon, Jennifer Aniston, og Steve Carell beint inn í stofu til sín. Það vakti einnig athygli okkar að Hera Hilmarsdóttir var mjög áberandi í kynningunni en hún fer með hlutverk í þáttunum SEE, ásamt Jason Momoa.

Vinsælasti iPadinn frá Apple fær uppfærslu og kallast þá iPad sjöunda kynslóð. Skjárinn er að stækka og hann fær A10 fusion örgjörva sem gerir hann einstaklega kraftmikinn. Á kynningunni var græn stefna Apple nefnd oftar en einu sinni og iPadinn var engin undantekning en hann er gerður úr 100% endurunnu áli.

Apple Watch Series 5 er mætt á svæðið og núna er hægt að sjá hvað klukkan er án þess að hreyfa hendina til þess að virkja skjáinn. Það ætlaði allt um koll að keyra þegar tilkynnt var að það væri innbyggður áttaviti í úrinu, en það eru auðvitað ekkert nema góðar fréttir fyrir fjallgöngugarpa og útivistarnöttara. Úrið er orðið að miklu öryggistæki en það býður upp á möguleikann að hringja í neyðarlínuna ef það skynjar að eitthvað sé ekki eins og það á að vera. Við viljum þó ekki hvetja til þess að fólk leggi sig í hættu við það að prófa hvort þessi eiginleiki virki.

Untitled-3

En þá að máli málanna!

Apple kynnti til leiks iPhone 11, iPhone 11 Pro og iPhone 11 Pro Max. Það er ekkert verið að spara stóru orðin.

Hvað eiga þessir símar sameiginlegt?

Allir þessir símar eru með A13 örgjörva. Það eru ekki allir sem vita hvað felst í því en þessi glæsilegi A13 örgjörvi gerir okkur kleift að nota símann lengur þar sem endingartími rafhlöðunnar er betri og við getum gert allt á 20% meiri hraða. Með símunum fylgir einnig hraðhleðslu kubbur, svo þegar rafhlaðan klárast þá er hægt að hlaða hann mjög hratt aftur. Það er jú martröð allra að rafhlaðan tæmist þegar maður er á biðstofunni hjá lækninum eða að fara að borga fyrir Nocco með Apple Pay.

Það kom í ljós að eplið er að verða grænna og grænna! Nýju símarnir eru að hluta til úr endurunnu efni. Við erum himinlifandi yfir þessu því þegar þú skilar gamla símanum í Endurgræðslu til okkar, þá geturðu notað hann til þess að borga upp í nýjan iPhone og aldrei að vita nema að gamli garmurinn endurfæðist sem glæsileg ný vara í framtíðinni.

Tölum um myndavélar!

Nú er hægt að hafa fleiri en eina og fleiri en tvær myndavélar í vasanum. Í iPhone 11 eru tvær myndavélar á bakhliðinni þar sem önnur linsan er víðlinsa. Myndavélin á framhliðinni hefur verið endurbætt, svo núna geta allir tekið enn þá glæsilegri sjálfur af sér, líka í slow motion. Í tilefni af því fann Apple upp nýtt orð og vonar að sem flestir taki svokallaðar Slofies af sér.

Í iPhone 11 Pro og iPhone 11 Pro Max eru hvorki meira né minna en þrjár myndavélar á bakhliðinni. Núna er hægt að taka sömu myndina í þremur mismunandi víddum. Þessar myndavélar vinna frábærlega vel saman og það er auðvelt að skipta á milli linsanna hvort sem maður er að taka mynd eða myndband. Skjárinn er nú orðinn enn þá betri en hann var og er svo frábær að Apple þurfti að koma með nýtt nafn á hann, Super Retina XDR.

iPhone 11 kemur í sex nýjum litum á meðan iPhone 11 Pro og iPhone 11 Pro Max koma í fjórum litum. Við erum hvað spenntust fyrir nýja dökkgræna litnum!

flottur simi

Það er á hreinu að þessi nýja lína af símum eru betri en forverar þeirra enda gefa nöfnin ekkert annað til greina, framtíðin er Super, Pro og Max og við erum mjög spennt að fá símana í hendurnar og deila gleðinni með ykkur!

Mynd af Sigurður Helgi Harðarson
Sigurður Helgi Harðarson
Innkaupastjóri Nova