Dansgólfið

8. okt 2019

Hættuleg stræti inter­nets­ins

Að þekkja hætturnar á öngstrætum internetsins!

Hættuleg stræti internetsins

Internetið er frábært en það er gríðarlega stór heimur og borgar sig að vera var um sig í ákveðnum aðstæðum. Það getur nefnilega verið hættulegt að ganga um í skuggalegu hverfi um miðja nótt og þá skiptir máli að þekkja hætturnar. Þetta gildir ekki bara um grunsamlegar götur heldur eru ýmsir hlutir sem varast þarf á öngstrætum internetsins.

Stundum er svindlið augljóst. Það hafa eflaust margir fengið tölvupóst um að hafa unnið margar milljónir bandaríkjadala í lottói sem enginn man eftir að hafa tekið þátt í eða að fá fregnir af fjarskyldum ættingja í Súdan sem hefur látið eftir sig gommu af peningum. Ef við pössum okkur ekki þá er hægt að ræna okkur um hábjartan dag.

Það er ekki alltaf auðvelt að greina hvort það sé verið að svindla á okkur eða ekki. Hér fyrir neðan koma nokkrir punktar sem geta hjálpað okkur að sjá hvort við séum lent í klónum á internet svindlara.

  • Það er mikið um stafsetningarvillur eða málfarsvillur í tölvupóstinum.
  • Þegar merki (logo) fyrirtækis er í tölvupóstinum en útlit og uppsetning lítur ekki allt út eins og vanalega.
  • Þegar þér eru boðin verðlaun sem eru of góð til þess að vera sönn.
  • Það er tilboð í gangi og það er verið að pressa á þig að ýta strax á hlekkinn því annars missir þú af tækifærinu.

Að vera var um sig á netinu er jafn mikilvægt og að muna eftir hjálminum þegar við þjótum um á rafskútunni og að vera með gott hulstur á símanum til að verja hann gegn hnjaski.

Eigið öruggan dag!